Mikilvægt að ná víðtækri sátt

mbl.is/Júlíus

Yfirlögregluþjónar á Norðurlandi óttast að fagleg umræða um stefnumótun og framtíðarskipulag lögreglunnar verði undir í því umróti og umræðum sem verið hafa undanfarna daga.  Þeir lýsa yfir stuðningi við dómsmálaráðherra og kalla eftir því að víðtæk sátt náist um framtíðarskipan lögreglunnar.

Álit yfirlögregluþjónanna er eftirfarandi:

„Yfirlögregluþjónar á Norðurlandi hafa áhyggur af því að í umróti og umræðum undanfarna daga víki eða verði undir fagleg umræða um stefnumótun og framtíðarskipulag lögreglunnar.  Á undanförnum árum hefur lögreglan í Íslandi gengið í gegnum margvíslegar breytingar og nú er unnið að frumvarpi til að ná fram nauðsynlegum breytingum á skipulagi hennar og uppbyggingu.  Þar eru fjöldamörg atriði sem lúta að því að lögreglan geti betur gegnt hlutverki sínu landsmönnum öllum til heilla í breyttum og síharnandi heimi afbrota og sé meðal annars betur í stakk búin til að takast á við alþjóðlega glæpastarfsemi sem farinn er að teygja anga sín hingað til lands.

Einstök mál, hversu mikilvæg þau kunna að vera tilteknum stöðum, embættum eða landshlutum, mega ekki verða til þess að meginmálið falli í skugga deilna og upphrópanna. 

Nauðsynlegt er að víðtæk sátt náist um framtíðarskipan lögreglunnar og að sem flestir komi að því starfi þannig að sameiginlegri niðurstöðu verði náð. 

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram skýrar hugmyndir og tillögur um framtíðarskipulag lögreglunnar sem auðveldlega ætti að vera hægt að ná víðtækri sátt um og fögnum við þessum tilllögum.  Við viljum ítreka stuðning okkar við dómsmálaráðhera og ráðuneyti hans í því starfi um leið og við vonum að sú orrahríð sem geysað hefur hafi ekki áhrif á það starf.  Það, að einstök embættisverk, einstakir málaflokkar eða áhersluatriði verði gerð að aðalatriði málsins er með öllu óþolandi.

Við, eins og aðrir, höfum misjafnar skoðanir á ýmsum útfærslum á skipulagi lögreglunnar og höfum bæði komið þeim á framfæri við ráðherrann og skilað inn athugasemdum vegna undirbúningsvinnu að frumvarpi um þessi mál.  En þrátt fyrir misjafnar skoðanir og áherslur, sem kannski fara ekki alltaf saman við skoðanir eða áherslur dómsmálaráðherra, þá treystum við honum öðrum betur til að koma þessu máli í höfn svo að skipulag lögreglunnar verið eins gott og mögulegt er til framtíðar litið.“

Undir þetta skrifa:

Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn, Blönduósi

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn, Sauðárkróki

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn, Akureyri

Ólafur Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, Akureyri

Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögregluþjónn, Húsavík


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert