Óperukór Hafnarfjarðar undir stjórn Elínar Óskar Óskarsdóttir óperusöngkonu við undirleik Peter Máté fékk mjög góðar viðtökur á tónleikum sem haldnir voru í tónleikasal konunglegu tónlistarskólans - Royal Conservatory - í Toronto í Kanada í gærkvöldi.
Efnisskrá var alþjóðleg með ítölsku, frönsku og þýsku ívafi auk íslenskrar tónlistar. Elín Ósk söng jafnframt eina af stóraríum úr Macbeth eftir Verdi. Sjö einsöngvarar komu fram með kórnum. Tónleikagestir risu úr sætum í lokin og fögnuðu ákaft. Tók kórinn því nokkur aukalög.
Að loknum tónleikunum var haldin móttaka í boði Þjóðræknisfélagsins í Toronto. Ræðismaður Íslands í Toronto, Gail Einarson McLeary, og David Visentin, rektor Tónlistarháskólans, sem höfðu veg og vanda að undirbúningi tónleikanna, voru sérstaklega heiðruð fyrir það.