Stjórnendur Glitnis hefðu mátt fara

Guðjón A. Kristjánsson.
Guðjón A. Kristjánsson. mbl.is/Ásdís

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir lítið annað hafi verið hægt fyrir ríkið en að ganga í málið og bjarga því sem bjargað verður.

„Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er, að ég hef fullan fyrirvara á því að sömu forystumenn stjórni þessum banka þegar ríkið er orðið eigandi hans, og hvað þá að þar verði áframhaldandi samskonar ofurlaunastefna og verið hefur í bankageiranum. Ég hefði viljað sjá nýja menn við stjórn bankans, ég get ekki séð að mönnum hafi tekist að stýra bankakerfinu eins og gera átti, af fullri ábyrgð. Við erum búin að horfa á menn velta sér upp úr tugum milljóna og alls konar samningum. Ætlar ríkið virkilega að fara á undan í því að ráða menn á einhverjum ofurlaunum? Er það launastefnan? Ég vona að svo sé ekki," segir Guðjón.

Hann telur þá leið sem ríkið fór hafa verið skárri kost en þann að lána Glitni við núverandi aðstæður. Nú sé frekar von á að bankakerfinu verði veitt betra aðhald og eftirlit, ekki hafi verið vanþörf á. Lánveitingar hafi verið óhóflegar á þenslutímum, t.d. til byggingaframkvæmda sem nú lýsi sér í offramboði á íbúðamarkaðnum. Mörgum spurningum sé ósvarað.

„Ég vona að þessar aðgerðir dugi til þess að ríkið þurfi ekki að vera með frekari inngrip. Ég vona að samtrygging bankanna í lánafyrirgreiðslu sé ekki með þeim hætti að það séu fleiri á sama stað. Menn hafa sagt fram á síðustu stundu að allt sé í lagi, eins og forystumenn Glitnis. Upplýsingagjöfin er ekki áreiðanlegri en þetta og því getur maður ekki fullyrt um að fleira sé í farvatninu. Vonandi hefur okkur tekist að lágmarka skaðann, þannig að ríkið og þjóðin eiga von á að fá fjármunina til baka," segir Guðjón, og telur að nú þurfi að hagræða enn frekar á bankamarkaði, ekki aðeins að fækka bönkum heldur ekki síður að taka á ofurlaununum, Ekki sé alltaf hægt að hagfræða við skrifstofuborðið hjá gjaldkeranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka