„Svartur dagur í sögu Íslands," segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, um tíðindi dagsins. Nú súpi menn seyðið af „aðgerðar- og stefnuleysi" ríkisstjórnarinnar.
„Ríkisstjórnin hefur brugðist seint við og haft lítil viðbrögð í frammi, fjármálakreppan um víða veröld er búin að liggja í loftinu síðan í fyrrahaust og því miður hefur ríkisstjórnin ekki tekist á við hana. Við framsóknarmenn höfum gagnrýnt þetta aðgerðarleysi mjög hart. Nú er fjármálakerfið hér á landi að fara mjög illa," segir Guðni.
Hann segir að fyrir löngu hafi vaxtalækkunarferli átt að hefjast, krónan hafi fallið um 50% frá áramótum og verðbólgan meiri en nokkru sinni. Á sama tíma sé verið að bjóða upp á hæstu stýrivexti í heimi, „allt í boði ríkisstjórnarinnar".
Guðni segir erfiðleika Glitnis vera í takt við þá erfiðleika sem fyrirtæki víða um heim hafa þurft að glíma við, þ.e. lausafjárskortinn. Bankinn komi í neyð til ríkisstjórnar og Seðlabankans og þurft á hjálp að halda. „Yfir þetta var farið með mér sem formanni flokks í stjórnarandstöðu í nótt. Mér fannst það sem Seðlabankinn bar á borð vera trúverðugt, það verður að bjarga sparifé landsmanna og reyna að róa markaðinn. Hluthafarnir sitja uppi með mikið tap og mikla erfiðleika. Það liggur í eðli bisnessmanna að græða og tapa."
Guðni segist í raun ekki geta gagnrýnt þá leið sem nú var farin, 84 milljarðar séu vissulega mikið fé, en vonandi hafi þetta ekki víðtækari afleiðingar í för með sér fyrir ríkissjóð. Ekki hafi verið hægt að grípa til lánveitinga til Glitnis í þeirri stöðu sem bankinn er í.