Læknar hvetja til þjóðarátaks til að draga úr tóbaksnotkun. Í ályktun aðalfundar þeirra er stungið upp á því að eftir tíu ár verði tóbak einungis afgreitt gegn lyfseðli í apóteki.
Aðalfundur Læknafélags Íslands vekur í ályktun athygli á því að hér á landi geisar faraldur sem rekja má til reykinga og dregur hundruð manna til dauða á ári hverju. Fundurinn hvetur til þjóðarátaks til að draga úr tóbaksnotkun á 15 árum.
Fundurinn leggur til að efnt verði til sérstaks tóbaksvarnaþings þar sem samhæfðar verði aðgerðir gegn faraldrinum og er stjórn Læknafélags Íslands falið að boða til fyrsta þingsins. Settar eru fram ýmsar tillögur til að ræða á þinginu.
Vakin er athygli á því að fækkun bráðra hjartaþræðinga eftir lagasetningu sem takmarkar óbeinar reykingar sýni að verulegs ávinnings megi vænta af aðgerðum til að draga úr tóbaksnotkun.
Til að draga úr fjölda þeirra sem hefja reykingar er lagt til að hækka aldur þeirra sem kaupa mega eða selja tóbak í 20 ár. Sala á tóbaki í matvörubúðum verði stöðvuð strax, síðar í sjoppum og á bensínstöðvum. Innan fimm ára verði tóbaki eingöngu dreift í sérstökum tóbaksverslunum. Að tíu árum liðnum verði svo tóbak einungis afgreitt gegn lyfseðli í apóteki og skilyrði þess að læknar skrifi út slíkan lyfseðil verði að sjúklingur hafi sjúkdómsgreininguna tóbaksfíkn og að ákveðin meðferðarúrræði hafi verið reynd og brugðist.
Lagt er til að útsöluverð á tóbaki verði hækkað, til dæmis um 10% á ári, og forvarnafræðsla í skólum efld.
Jafnframt eru lagðar fram hugmyndir um það hvernig megi aðstoða þá sem ánetjast hafa tóbaki og geta ekki hætt, meðal annars með bættum meðferðarúrræðum og innlögnum á sjúkrastofnanir.