Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir, í skriflegu svari til Morgunblaðsins, að markmið starfsfólks ráðuneytisins sé að haga sambandi við stofnanir ráðuneytisins á þann veg að ekki sé ástæða til að kvarta undan sleifarlagi eða athafnaleysi.
Hann ræður af máli Jóhanns R. Benediktssonar, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, að hann sætti sig almennt illa við þá sem hafa yfir honum lögbundið afskiptavald. Björn segir um lausn á fjárhagsvanda lögreglustjóraembættisins að hann geri skiptingu ráðuneytisins á milli þriggja ráðuneyta að skilyrði fyrir tillögum um auknar fjárveitingar.
Jóhann R. Benediktsson gagnrýnir dómsmálaráðuneytið og ráðherra harðlega, meðal annars í viðtali við Morgunblaðið í gær. Hann ræðir um alvarlegan samskiptavanda við ráðuneytið og segir að barátta sín við það sem hann telur ómálefnalega málsmeðferð ráðherra og ráðuneytis hafa dregið mátt úr lögreglunni. Dómsmálaráðherra tilkynnti Jóhanni fyrr í mánuðinum að ákveðið hefði verið að auglýsa stöðu hans lausa til umsóknar en skipað er í embættið til fimm ára í senn.
Björn Bjarnason kannast ekki við þessa lýsingu Jóhanns á samskiptum hans við ráðuneytið. Hann segir meðal annars um þetta í skriflegu svari til Morgunblaðsins. „Allir, sem við mig hafa samband eða ráðuneytið, fá skjót viðbrögð. Að sjálfsögðu eru ekki allar tillögur samþykktar en markmið okkar í ráðuneytinu er að haga sambandi við stofnanir ráðuneytisins á þann veg, að ekki sé ástæða til að kvarta undan sleifarlagi eða athafnaleysi. Ráðuneytið er vel mannað, metnaðarfullu starfsfólki, og hið sama er að segja um embætti ríkislögreglustjóra, en það virðist Jóhanni sérstakur þyrnir í augum. Af máli hans má ráða, að hann sætti sig því miður almennt illa við þá, sem hafa yfir honum eitthvert lögbundið afskiptavald.
Ég hef ávallt svarað Jóhanni hafi hann sent mér orðsendingar og ávallt tekið því vel, hafi hann óskað eftir fundi með mér. Hann var til dæmis meðal fyrstu gesta á heimili mínu, eftir að ég kom af sjúkrahúsi í apríl 2007 og ræddum við þá lengi um persónulega hagi hans og framtíð embættisins. Hafi barátta Jóhanns við mig dregið úr krafti hans við að stjórna embætti sínu, get ég ekki annað en harmað, að hann hafi valið sér það hlutskipti. – Varla er unnt að kenna mér um það?“