Óheimilt að leggja á gangstétt

Stöðvunarbrot í miðborginni.
Stöðvunarbrot í miðborginni. Lögreglan

Lögreglumenn við eftirlit í Vesturbænum í Reykjavík í gærkvöldi töldu tæplega 40 bíla sem lagt var uppi á gangstéttum við fáeinar götur. Eiga umráðamenn bílanna allir sektir yfir höfði sér. Lögreglan segir mikið um að bílum sé lagt ólöglega. Í miðborginni beri á því að ökumenn flutningabíla virði ekki reglur um vöruafgreiðslu á svæðinu.

„Um þetta hefur verið fjallað sérstaklega á lögregluvefnum og er greinilega full ástæða til,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni. „Í ljósi þessa er ekki úr vegi að rifja upp umferðarlögin en í þeim segir m.a. að lagning eða stöðvun ökutækis á gangstétt sé óheimil. Lögreglu berast margar kvartanir vegna þessa enda eiga gangandi vegfarendur oft erfitt með að komast leiðar sinnar af áðurnefndum sökum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka