Afgreiðslu sparisjóðsins á Borðeyri lokað

Mynd: Sveinn Karlsson/strandir.is.

Ekki stendur til að loka neinum af afgreiðslustöðum Sparisjóðs Vestfirðinga, að sögn Geirmundar Kristinssonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík. Í dag er hins vegar síðasti dagurinn sem afgreiðslan á Borðeyri er opin, en hún tilheyrði Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.

Eins og kunnugt er voru Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Húnaþings og Stranda og Sparisjóður Vestfirðinga sameinaðir í sumar undir nafni Sparisjóðsins í Keflavík. Uppi hefur verið þrálátur orðrómur þess efnis að tveimur afgreiðslum Sparisjóðs Vestfirðinga verði lokað en Geirmundur segir að slíkt eigi ekki við rök að styðjast, samkvæmt frétt Bæjarins besta.

Í síðustu viku var tilkynnt um hagræðingu hjá Sparisjóðnum í Keflavík, meðal annars um breyttan afgreiðslutíma hjá fimm af átta afgreiðslum Sparisjóðs Vestfirðinga. „Þetta eru þær aðhaldsaðgerðir sem við grípum til. Hins vegar er engu hægt að spá um framtíðina eins og málum er háttað í fjármálaheiminum í dag“, segir Geirmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert