Bleika slaufan í sölu á morgun

Bleika slaufan 2008
Bleika slaufan 2008

Sala á bleiku slaufunni, árlegt söfnunarátak Krabbameinsfélags Íslands, hefst formlega á morgun. Hefur félagið sett sér það markmið að selja 40 þúsund eintök af bleiku slaufunni fram til 15. október. Dorrit Moussaieff, forsetafrú, veitti fyrsta eintakinu af bleiku slaufunni viðtöku í höfuðstöðvum Krabbameinsfélags Íslands í dag.

Jafnframt heimsótti forsetafrúin Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og skoðaði nýjan stafrænan tækjabúnað leitarstöðvarinnar sem skipta mun sköpum við nýgreiningu á krabbameini í brjósti.

„Allur ágóði af sölu á bleiku slaufunni verður notaður til að ljúka greiðslu á nýju, stafrænu röntgentækjunum og öðrum búnaði til brjóstakrabbameinsleitar sem mun gera okkur kleift að bjarga enn fleiri mannslífum,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, í fréttatilkynningu.

Nýi stafræni tækjabúnaðurinn er mikil tæknibylting og eitt stærsta verkefni Krabbameinsfélagsins í 57 ára sögu þess, en alls nemur kostnaður við tæki, forrit, uppsetningu og þjálfun starfsfólks sem stjórnar nýja búnaðinum ríflega 600 milljónum króna. Töluverðir fjármunir hafa safnast upp í kaupin nú þegar frá örlátum gefendum og bindur forstjóri Krabbameinsfélagsins vonir við að salan á bleiku slaufunni dugi til að brúa það sem upp á vantar, að því er segir í tilkynningu.

Alls hafa verið fest kaup á 5 starfrænum röntgentækjum og eru þrjú staðsett í leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð, eitt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en fimmta tækið er færanlegt og verður notað í skoðunarferðum í aðra landshluta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert