Skrifaði ekki undir yfirlýsinguna

Stoðir
Stoðir

Stjórnarmaður í Stoðum segir að ekki séu allir stjórnarmenn sáttir við yfirlýsingu þá sem stjórn félagsins sendi frá sér í gærkvöld, að sögn fréttastofu Ríkisútvarpsins í morgun. Í yfirlýsingunni var farið hörðum orðum um yfirtöku ríkisins á Glitni. Að sögn fréttastofunnar kvaðst stjórnarmaðurinn ekki hafa skrifað undir yfirlýsinguna sem skrifuð var í nafni stjórnarinnar og þar með hans.

Í yfirlýsingunni segir m.a.:

„Það er mat stjórnar Stoða að Seðlabankinn hafi haft aðra og farsælli kosti í stöðunni en að taka Glitni yfir. Harkalegt inngrip Seðlabankans er ekkert annað en eignaupptaka þar sem hluthafar Glitnis tapa vel á annað hundrað milljörðum króna. Seðlabankinn og ríkisstjórnin stilltu stjórn og stærstu eigendum Glitnis upp við vegg í skjóli nætur og þeir áttu því enga kosti aðra en að samþykkja tillöguna. Atburðarásin var með þeim hætti að ekkert tóm gafst til að leita annarra lausna, frekar en að meta heildaráhrif aðgerðanna á íslenskt fjármálalíf. Stjórn Stoða harmar þessar aðgerðir og lýsir fullri ábyrgð á afleiðingum þeirra á hendur bankastjórnar Seðlabankans."

Í stjórn Stoða sitja Ingibjörg Pálmadóttir, sem er stjórnarformaður, Eiríkur Jóhannesson, sem er varaformaður stjórnar, og Árni Hauksson, Katrín Pétursdóttir og Þorsteinn M. Jónsson.  Einar Þór Sverrisson og Þórður Bogason eru varamenn í stjórninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert