Engar viðræður um sameiningu

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar fullyrtu eftir ríkisstjórnarfund í morgun að engar formlegar viðræður væru við eigendur Landsbankans um sameiningu hans og Glitnis. Björgólfur Thor Björgólfsson og bankastjórar Landsbankans voru á fundi í stjórnarráðinu í gærkvöldi.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherrra segir að sameining Landsbankans og Glitnis hefði hvergi verið rædd með formlegum hætti. Hann segir að mönnum sé frjálst að ræða hvað sem er við hvern sem er en formlegar viðræður hafi hvergi farið fram.

Geir H. Haarde tók í sama streng og sagðist iðulega hitta Björgólf Thor Björgólfsson þegar hann væri á landinu. Þeir hefðu ákveðið að nota tækifærið í gærkvöldi enda ekki óeðlilegt í ljósi þeirra breytinga sem hefðu orðið á markaðnum. Í morgun hefði hann átt símafund með fulltrúum allra bankanna. Hann sagðist ekki ætla að svara fyrir áhuga Björgólfs Thors á sameiningu Glitnis og Landsbanka.  Hann gerði ráð fyrir því að þeir hefðu vissan áhuga en ætlaði ekki að fara nánar út í það.

Geir H. Haarde sagði að ástandið væri ótryggt og það væri uppnám á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eftir að bandaríska fulltrúadeildin felldi björgunarpakka ríkisstjórnarinnar til handa fjármálakerfinu þar í landi. Hann sagðist telja það  fullkomið ábyrgðarleysi að fella málið en vonandi tækist að leysa fjármálamarkaðinn úr þessari prísund síðar í vikunni. Hinsvegar tækist vonandi að leysa það mál síðar í vikunni.

Geir sagði að ánægjulegt væri að sjá í dag að íslensku bankarnir væru ekki að verða fyrir miklum áhrifum af þessu og gengi Glitnis væri hærra en menn hefðu talið eftir atburðina í gær. Hann sagðist ekki ansa yfirlýsingum  Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um að yfirtaka Glitnis hefði verið bankarán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert