„Guðjón Arnar lét undan hótunum“

Jón Magnússon var kjörinn þingflokksformaður Frjálslynda flokksins að tillögu Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns flokksins, á þingflokksfundi í gær. Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingflokksformaður, segist ekki vera sáttur við þetta.

„Hótanir borga sig gagnvart Guðjóni Arnari Kristjánssyni,“ segir Kristinn. Hann segir Guðjón Arnar hafa fyrir nokkrum vikum tilkynnt að hann yrði áfram þingflokksformaður en hafi nú skipt um skoðun. „Síðan hafa verið miklar árásir bæði á mig og formanninn frá Jóni Magnússyni og Nýju afli hans. Það hefur leitt til þess að formaðurinn hefur skipt um skoðun. Hann lét undan hótunum og setur í formennsku mann sem er búinn að lýsa yfir vantrausti á alla starfsmenn flokksins. Hann er búinn að vitna opinberlega í einkasamtöl við formanninn. Hann er búinn að leggjast gegn tilraunum formannsins til að fá Ólaf F. Magnússon inn í flokkinn og lýsa opinberlega yfir andstöðu við það og reyna að spilla því eins og hægt er. Niðurstaðan er sú að það skilar árangri,“ segir hann.

Stuðlar að friði í flokknum

Kristinn segir að Guðjón Arnar hafi gefið sér þær skýringar að hann teldi að formannsskiptin sköpuðu meiri frið í flokknum, en ekki náðist í Guðjón við vinnslu fréttarinnar.

Jón Magnússon segist hafa talið það nauðsynlegt að það yrðu gerðar breytingar til þess að fá frið í flokknum. „Ég vona að þetta verði til þess,“ segir hann.

Segir ekkert um framtíðina

Aðspurður hvernig honum líði í Frjálslynda flokknum eftir þessar breytingar segir Kristinn líðan sína ekki vera til umræðu og aðspurður hvort hann yrði áfram í flokknum sagði hann: „Það kemur bara í ljós.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka