Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður Árnesinga, varpaði fram þeirri hugmynd á dögunum, í kjölfar alvarlegs umferðarslys í Ölfusi milli Selfoss og Hveragerðis, að rétt kynni að vera að minnka hraða á þeim slóðum niður í 70 km úr 90 km með tilliti til slysahættu.
Fjölmörg alvarleg slys hafa orðið á þessum slóðum í tímans rás, þar á meðal allnokkur banaslys. Hafist verður handa um gerð nýs tvöfalds Suðurlandsvegar á næsta ári, það er úr Svínahrauni að Kömbum. Framkvæmdir í Ölfusi fara hins vegar ekki að stað fyrr en á síðari stigum í þeim pakka, sem sumir hafa talið óskynsamlega ráðstöfun með tilliti til umræddrar slysahættu. Óafgreidd mál sem varða skipulag í Ölfusi eru þess valdandi að ekki er hægt að hefjast handa þar jafn fljótt og margir hefðu kosið, þar á meðal sýslumaðurinn góðkunni.