„Þarna var 17 ára drengur sem er að okkar mati svo illa staddur að hann er í hættu. Það slær mann,“ segir Þorleifur Gunnarsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna. Hann fór ásamt Amal Tamimi og Birgittu Jónsdóttur í heimsókn á gistiheimilið Fit í Reykjanesbæ. Þar búa margir þeirra sem leita hælis hérlendis á meðan umsókn þeirra er til athugunar.
„Þetta var virkilega erfitt. Fólk er í svo mikilli vanlíðan þarna og aðbúnaðurinn er ömurlegur að mínu mati,“ segir hann og lýsir ónýtum húsgögnum, ófrágengnum gluggum, sem vantar í gluggakistur, og óhreinindum.
„Amal Tamimi var með okkur og hann sagði ekki langt síðan hann jarðaði mann sem tók líf sitt við þessar aðstæður,“ segir hann.
Þorleifur segir upplifun hælisleitenda af húsleitinni sem þar var gerð þann 11. september síðastliðinn hræðilega.
„Þau lýsa þessu eins og innrás. Það er farið inn í alla íverustaði, sumir handjárnaðir og fá jafnvel ekki að fara í föt. Það eru teknir af þeim peningar, símar og fleira og þau vita ekkert hvað er að gerast. Þeim er sýnt blað sem þau geta ekki lesið, það er enginn túlkur með og enginn lögfræðingur,“ segir Þorleifur.
Hann segir ekki hægt að túlka aðgerðir lögreglu sem annað en árás. Ekki hafi verið leitað á neinum sérstökum heldur hafi hópurinn allur verið tekinn fyrir. Grunur lögreglu verði að beinast að einhverjum sérstökum. „Þetta er ekki í lagi. Svona vil ég ekki komið sé fram við nokkurn mann.
Ég vil sjá að þetta fólk fái almennilegan aðbúnað. Húsnæði sem við treystum okkur sjálf til að búa í, að fólk sé aðstoðað við að fá vinnu og fái félagslega aðstoð og læknisaðstoð,“ segir hann.