Sparifjáreigendur þurfa ekki að óttast um sinn hag í kjölfar óstöðugs efnahagsástands í heiminum eða ríkisvæðingar Glitnis banka segir á vefsíðu talsmanns neytenda. Þar kemur fram að neytendur njóta lögbundinna trygginga gagnvart tapi á innistæðu og verðbréfaeign sem nemur rúmlega 3 milljónum króna hjá hverjum banka.
Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason segir að fjárhæðin sem miðað er við séu 20 þúsund evrur sem á núverandi gengi séu rúmar 3 milljónir króna.
Neytendur, sem lagt hafa sparnað sinn í áhættusamari fjárfestingu með kaupum á hlutabréfum, njóta ekki slíkrar verndar.
Á netsíðu hans segir: „Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum neytenda og fjölmiðla undanfarið og hefur talsmaður neytenda því að nýju fengið staðfest hjá lögbundnum skyldutryggingarsjóði að samkvæmt íslenskum lögum eru neytendur og aðrir eigendur innistæða og verðbréfa hjá íslenskum fjármálastofnunum tryggðir upp að þessu lágmarki í hverri fjármálastofnun.
Auk þess virðast atburðir undanfarna tvo sólarhringa hafa staðfest að fyrir hendi sé óbein viðbótartrygging ríkisins á innlánum."
Þrenns konar hagsmunir
Í greinargerðinni kemur ennfremur fram að þrenns konar neytendahagsmunir hafi verið í húfi þegar Glitnir banki var ríkisvæddur:
„Þrenns konar megin neytendahagsmunir voru í húfi auk hagsmuna starfsmanna og ríkissjóðs sem slíks þegar lausafjármögnun Glitnis banka reyndist tvísýn í síðustu viku:
- Fjármálastöðugleiki og kerfisáhætta.
- Hagsmunir innistæðueigenda, þ.m.t. neytenda.
- Hagsmunir hluthafa, þ.m.t. neytenda.
Nú hafa fyrrnefndu hagsmunirnir tvennir verið látnir ganga fyrir síðastnefndum hagsmunum - eins og raunin hefur verið víðast hvar í lausafjárkreppu heimsins undanfarið. Þó að neytendur séu einnig í hópi hluthafa, sem tapa verulegu fé, er ljóst að hlutafé er áhættu- og langtímafjárfesting sem á áratugamælikvarða gefur meiri ávöxtun; eru lífeyrissjóðir á meðal þeirra langtímafjárfesta sem tapa á slíku. Innistæður eru á hinn bóginn sparnaðarform sem nýtur mun minni ávöxtunar; er því almennt viðurkennt í laga- og stjórnmálakerfum að slíkt skuli njóta frekari verndar - eins og nú hefur verið staðfest í verki þannig að ekki þurfti að reyna á formlegu lágmarksverndina."
Sjá heimasíðu talsmanns neytenda