Bleiki liturinn verður áberandi næsta mánuðinn enda hefur október um langa tíð verið helgaður átaki gegn brjóstakrabbameini. Sala á bleiku slaufunni hefst í dag og stefnir Krabbameinsfélag Íslands (KÍ) á að selja 40.000 slaufur fyrir 15. október til að ljúka fjármögnun á nýjum stafrænum röngtentækjum sem keypt voru í upphafi árs.
„Þessi tæki eru ekki bara nútímalegri, þau eru líka betri,“ sagði Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri KÍ, þegar átakið var kynnt í gær og vísaði í þá reynslu að nýju leitartækin auðveldi leit í þéttum brjóstvef og gefi möguleika á nákvæmari greiningu, ekki síst hjá ungum konum.
Brjóstakrabbi er langalgengasta krabbameinið meðal kvenna og á Íslandi greinast árlega 176 konur. Lifun eftir greiningu er hins vegar betri hér en víða annars staðar, því tæp 90% þeirra kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein á Íslandi eru á lífi fimm árum síðar og er það einn besti árangur í baráttunni gegn brjóstakrabbameini sem um getur.