57 milljarða króna halli

Ríkisstjórnin hefur í fyrsta sinn samþykkt rammafjárlög til næstu fjögurra ára. Þar kemur fram að halli á ríkissjóði verði 56,9 milljarðar króna á næsta ári, sem nemur 3,7% af vergri landsframleiðslu. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs árið 2009 verða 450,5 milljarðar en gjöldin verða 507,4 milljarðar.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í dag og tók fram að gert sé ráð fyrir minni hallarekstri næstu tvö árin þar á eftir, þ.e. 2010 og 2011, en síðan verði tekjuafkoma orðin jákvæð árið 2012.

Staða ríkissjóðs sterk

Árni segir að staða ríkissjóðs sé sterk vegna góðrar afkomu undafarinna ára. Af þeim sökum sé hægt að mæta þeim samdrætti sem áætlaður er að verði í tekjum ríkissjóðs á næstu árum. Ætla megi að innistæða ríkisins í Seðlabankanum muni nema rúmum 170 milljörðum kr. í lok þessa árs. Til samanburðar var innistæðan 17 milljarðar árið 2004.

Í máli fjármálaráðherra kom fram að með því að leggja fram rammafjárlög til næstu ára sé verkefnum forgangsraðað í samræmi við áherslumál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá er þeim ætlað að stuðla að þeirri meginstefnu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálin gegni sveiflujafnandi hlutverki á tímabilinu.

Persónuafsláttur hækkar

Sem fyrr segir er áætlað að tekjur ríkissjóðs árið 2009 verði 450,5 milljarðar króna, sem er 13 milljörðum króna minna en í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2008. Skýrist það m.a. af lakari þjóðhagshorfum með minnkandi sköttum á tekjur og hagnað. Þannig muni persónuafsláttur hækka um 24 þúsund krónur frá næstu áramótum, en hann er jafnframt verðtryggður sem leiðir til þess að tekjuskattur einstaklinga skilar talsvert minna í ríkissjóð en ella. Raunar er áætlað að skattleysismörk hækki um 18 prósent í þessum fyrsta áfanga.

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2009 eru áætluð 507,4 milljarðar króna og aukast útgjöldin um 3,9% að raungildi á milli ára miðað við endurskoðaða áætlun ársins 2008, þar af hækka rekstrargjöldin um 2,9% að raungildi.  Munar þar mest um hækkun rekstrargjalda á sviði heilsugæslu, öldrunarþjónustu og í málefnum fatlaðra, hækkun á framlögum til menntamála og löggæslu- og öryggismála. Verulega munar líka um aukin útgjöld í kjölfar kjarasamninga við stéttarfélög ríkisstarfsmanna, hækkun verðlags og verðfalls krónunnar. Gripið er til ýmissa aðgerða á gjaldahlið til að lækka útgjöldin, sem nemur um 10 milljörðum króna. Er þar um að ræða aðhald í rekstri, lækkun á tekjutilfærslum og breytingar á tímaröðun ýmissa framkvæmda.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í Hafnarborg í Hafnarfirði í …
Árni Mathiesen fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert