Síðasta skólaár nutu 10.640 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðnings, sem er 24,3% allra nemenda. Er það fækkun um 162 nemendur frá fyrra skólaári, sem er 1,5% fækkun. Hlutfallslega flestir nemendur 4. bekkjar (9 ára nemendur) nutu stuðnings eða 27,4 prósent af árganginum.
Hlutfallslega fæstir 10. bekkjar nemendur njóta stuðnings, 18,5% nemenda. Af þeim nemendum sem njóta stuðnings eru 62,2% drengir og 37,8% stúlkur, að því er segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Meðalfjöldi skóladaga 179
Meðalfjöldi skóladaga allra bekkja grunnskóla á Íslandi var 179,2. Skóladagar voru frá 172 til 189 með einni undantekningu. Í einum skóla eru skóladagar 139 og er sá skóli með undanþágu fyrir nemendur 1.-3. bekkjar vegna skipulags skólaaksturs. Fæstir voru prófdagar hjá nemendum í 1. bekk; 0,5 dagar. Flestir voru prófdagarnir hjá 10. bekkingum; 7,2 að meðaltali, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.
Í lögum um grunnskóla segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Starfstími nemenda er talinn í skóladögum, sem skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga. Með öðrum dögum er átt við þá daga þar sem skólastarf samkvæmt stundaskrá undir stjórn kennara fer ekki fram, t.d. þegar farið er í skólaferðalög og vettvangsferðir.
Lágmarksfjöldi kennslustunda í 1.-4. bekk skal vera 30 stundir (1.200 mín.), á miðstigi, þ.e. í 5.-7. bekk, skal að lágmarki kenna 35 stundir (1.400 mín.) og í 8.-10. bekk að lágmarki 37 kennslustundir (1.480 mín.) á viku samkvæmt námsskrá.
Hagstofa Íslands
safnar upplýsingum frá grunnskólum að vori. Í gögnum frá vori 2008 er
ekki marktækur munur á fjölda skóladaga eftir bekkjum.
Skólaárið
2007-2008 voru 174 grunnskólar starfandi á Íslandi. Ekki er öllum
árgöngum kennt í öllum skólum landsins. Flestir skólar kenna 2. bekk (7
ára börn), eða 167 skólar. Elstu nemendunum, 10. bekk, er kennt í 138
skólum.
13 starfsdagar hjá kennurum
Í vorskýrslu grunnskóla er einnig spurt um vinnudaga kennara án
barna, svokallaða starfsdaga. Að meðaltali voru starfsdagar kennara
13,1 á síðastliðnu skólaári. Fjöldi starfsdaga var misjafn eftir skólum
og var heildarfjöldi starfsdaga frá 5 til 21. Að meðaltali voru 4,9
starfsdagar teknir á starfstíma skóla og 8,2 dagar utan starfstíma
skóla, svokallaðir skipulagsdagar að hausti og vori.
Vinnudagar
grunnskólakennara voru að meðaltali 179 talsins með nemendum og 13
starfsdagar, eða 192 vinnudagar alls. Þetta er óbreyttur fjöldi frá
síðastliðnu skólaári.