Hvetur lækna til að samþykkja samninginn

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, hvetur lækna til þess að samþykkja samninginn við ríkið, sem samninganefndirnar skrifuðu undir fyrir nokkrum mínútum.

Birna segir að hún hafi ekki séð samninginn en aðalatriðið sé að samningur sé í höfn. „Ég er mjög ánægð með það að það hafi náðst samningur við ríkið,“ segir hún.

Samningurinn er til sex mánaða eða út mars á næsta ári og á sömu nótum og samningurinn sem gerður var við BHM í sumar. Birna segir að næsta skref sé að kynna samninginn fyrir félagsmönnum og síðan fari fram rafræn kosning um hann.  „Mér finnst varhugavert að fara út í grimmar aðgerðir í þessu ástandi sem er í efnahagsástandi þjóðarinnar,“ segir hún.

Birna segist vera mjög sátt við að fá samning sambærilegan við BHM samninginn. „Ég legg til að þessi samningur verði samþykkur,“ segir hún. „Ég hvet lækna til þess að samþykkja hann og mér finnst vera samstaða um það á meðal allra forsvarsmanna læknasamtakanna að það sé mikilvægt að ná samningi.“

Að sögn Gunnars Ármannssonar, formanns samninganefndar lækna og lögfræðings LÍ, felur samningurinn í sér meðaltalshækkun upp á rúm 6%. „Inni í þessu er 20.300 króna hækkun á allar launatöflur, auk þess sem allar yfirvinnugreiðslur hækka,“ segir Gunnar.

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands
Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert