„Þetta er fjandsamleg leið sem Seðlabankinn valdi að fara. Það er hreinlega verið að stela af hluthöfum. Þetta er opinbert rán,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs og aðaleigandi Glitnis.
Hann segist hafa varað við því að leita til Seðlabankans eftir aðstoð. „Ég sagði að það yrði feigðarför. Það kom svo á daginn.“ Mat sitt byggði hann á fyrri samskiptum sínum við Davíð Oddsson seðlabankastjóra.
Einn stór hluthafi í Glitni sagði að þegar „búið væri að króa dýrið af úti í horni biti það frá sér“. Greinilega á að finna aðrar leiðir en Seðlabankinn valdi. Telja hluthafar sem rætt var við í gær mögulegt að selja starfsemi Glitnis í Noregi. Það sé til skoðunar. Aðrir segja þetta sett fram til að rugla umræðuna. Ákvörðunin í fyrradag standi.
Jón Ásgeir segir niðurstöðuna sem nú liggi fyrir vonda fyrir hluthafa, fjármálakerfið í heild og um leið allan almenning. Það hafi meðal annars sýnt sig í gær þegar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs og fjármálafyrirtækja voru lækkaðar. Það geti haft víðtæk áhrif.
Aðrir hluthafar segja að þetta geti haft mikla keðjuverkun inn í bankakerfið ef margir verði gjaldþrota. Afleiðingarnar geti orðið verri en margir geri sér grein fyrir.
Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Glitni, segir að stjórn Glitnis hafi verið stillt upp við vegg í samskiptum við Seðlabankann.
„Menn höfðu enga valkosti og þegar stjórnin var að samþykkja þetta var klukkan orðin níu að morgni, formaður bankastjórnar var búinn að boða til blaðamannafundar og ókyrrð komin á markaðinn,“ segir Sigurður. Hann segir að Fjármálaeftirlitið hafi tilkynnt stjórninni að viðskipti með bréf í Glitni yrðu stöðvuð.
Sigurður gagnrýnir vinnubrögð Seðlabankans í þessu máli. „Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að gera tilboðið skriflega. Lögfræðingar stjórnarinnar og stjórnarformaður þurftu að koma á fund stjórnarinnar með munnlegt tilboð. Í 84 milljarða króna samningi hlýtur það að hljóma nokkuð einkennilega.“