Laufásborg hækkar skólagjöld um 15%

mbl.is/Valdís Thor

Leikskólagjöld hækka um 15 prósent hjá nýjum nemendum á leikskólanum Laufásborg frá og með 1. október. Hækkunin nemur frá 1500 til 3000 krónum að hámarki.

Að sögn Margrétar Pálu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar, er verið að láta foreldra vita og afla samþykkis fyrir hækkuninni.

Fá minna en aðrir skólar

Margrét Pála er framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar. „Nýir foreldrar greiða ívið hærri foreldragjöld vegna þess að Reykjavíkurborg greiðir aðeins minna til sjálfstætt starfandi leikskóla heldur en annarra,“ segir hún. Til þess að skólarnir komi út á pari heimilar borgin að foreldragjöldin séu 15 prósentum hærri og nýta allir sjálfstæðir skólar þá heimild.

Leikskólagjöldin hækka þó ekki fyrir þau börn sem voru á leikskólanum þegar samningurinn var gerður milli Laufásborgar og Reykjavíkur, þar sem leikskólinn fær fullt framlag frá borginni vegna þeirra.

Hjallastefnan rekur leikskóla í mörgum sveitarfélögum og segir Margrét Pála Reykjavík eina staðinn þar sem skólinn fær ekki fullt framlag. Hún tekur þó fram að borgin hafi unnið að miklum réttindabótum fyrir sjálfstæðu leikskólana undanfarin tvö ár. „Margt hefur lagast gífurlega og staða sjálfstæðu leikskólanna og framlag borgarinnar til þeirra er réttlátara en það hefur nokkurn tíma verið.“

Veikindi starfsfólks

Kristín Egilsdóttir er fjármálastjóri leikskólasviðs borgarinnar. Hún segir jafn háa rekstrarstyrki veitta vegna barna í sjálfstæðu skólunum og borgarreknum. Auk þess fái þeir húsnæðisstyrk frá borginni. „En þessi 15 prósent sem sjálfstæðu skólana vantar upp á eru vegna ýmissar þjónustu sem veitt er miðlægt hjá okkur. Undir það falla til dæmis langtímaveikindi starfsmanna,“ segir hún.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert