Leikskólagjöld hækka um 15 prósent hjá nýjum nemendum á leikskólanum Laufásborg frá og með 1. október. Hækkunin nemur frá 1500 til 3000 krónum að hámarki.
Að sögn Margrétar Pálu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar, er verið að láta foreldra vita og afla samþykkis fyrir hækkuninni.
Leikskólagjöldin hækka þó ekki fyrir þau börn sem voru á leikskólanum þegar samningurinn var gerður milli Laufásborgar og Reykjavíkur, þar sem leikskólinn fær fullt framlag frá borginni vegna þeirra.
Hjallastefnan rekur leikskóla í mörgum sveitarfélögum og segir Margrét Pála Reykjavík eina staðinn þar sem skólinn fær ekki fullt framlag. Hún tekur þó fram að borgin hafi unnið að miklum réttindabótum fyrir sjálfstæðu leikskólana undanfarin tvö ár. „Margt hefur lagast gífurlega og staða sjálfstæðu leikskólanna og framlag borgarinnar til þeirra er réttlátara en það hefur nokkurn tíma verið.“