Milljóna tap starfsmanna

 Starfsmenn Glitnis töpuðu margir hverjir milljónum króna þegar ríkið eignaðist 75 prósent í bankanum um síðastliðna helgi. Það gerir áhyggjur starfsmanna af framvindu mála enn meiri en ella, að mati Friðberts Traustasonar, formanns Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Dæmi eru um að starfsmenn hafi tapað tugum milljóna króna.

Friðbert segir óvissutíma fara illa í starfsmenn Glitnis sem og annarra banka. „Hljóðið í starfsfólki er ekki gott. Margir hafa áhyggjur af stöðunni sem blasir við á íslenskum fjármálamarkaði og þær áhyggjur eru skiljanlegar. Þó að miklir peningar séu í spilunum þá þurfa allir að átta sig á því, stjórnmálamenn og aðrir, að líf fólks byggist á atvinnu og tekjum. Eins og sakir standa er töluvert öryggisleysi á fjármálamarkaði.“

Uppsagnir ekki fyrirhugaðar

Friðbert segir starfsmenn fjármálafyrirtækja eiga rétt á því að upplýsingagjöf frá fjármálafyrirtækjunum sé skilvirk og góð á óvissutímum eins og núna. „Það hefur borið á því að starfsfólk í fjármálafyrirtækjum hafi kvartað yfir því að fá ekki nægilega góðar upplýsingar um stöðuna. Það sem er að gerast á fjármálamörkuðum er í raun alvarlegur heimsviðburður. Það skiptir miklu máli að starfsmenn séu upplýstir um hvað er að gerast á hverjum tíma. Mér finnst stundum hafa borið á því að upplýsingagjöf um raunverulega stöðu hafi verið ábótavant, án þess að ég sé að tala um eitthvert eitt fyrirtæki umfram annað í þeim efnum.“

Margir starfsmenn fjármálafyrirtækja hafa haft stóran hluta tekna sinna í bónusgreiðslum sem hafa minnkað mikið samhliða vondri stöðu á fjármálamörkuðum. Friðbert segir einnig að fólk sem hafi miklar tekjur, og hafi spennt bogann hátt á meðan tekjurnar voru háar, þurfi að endurskoða stöðu sína og halda að sér höndum. „Það reynir á fólk og það þarf að hlúa að sínum fjárhag og sýna fyrirhyggju. Það á við um starfsfólk fjármálafyrirtækja eins og aðra landsmenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert