Ræddu þeir samkomulag eða ekki?

Þáttur Landsbankans í samningaviðræðum við eigendur Glitnis og ríkisins hefur verið til umræðu í fjölmiðlum. Samkvæmt heimildum 24 stunda áttu forsvarsmenn Landsbankans fund með Glitni um kvöldmatarleytið á sunnudag og þar lögðu þeir til ákveðnar hugmyndir að lausn lausafjárhagsvanda Glitnis sem fól í sér að Landsbankinn og ríkissjóður myndu kaupa Glitni sem rynni inn við það inn í Landsbankann. Hlutdeild ríkissjóðs hefði samkvæmt tillögunum verið minni í sameinuðum banka en nú er í Glitni en heildarframlagið hærra. Heimildarmenn 24 stunda segja að hugmyndir Landsbankamanna hafi verið á þann veg að ógerlegt var fyrir ríkið að gangast við þeim. Fundarhöld héldu áfram í fyrrakvöld og í gærmorgun hjá stjórnendum Landsbankans og fór Björgólfur Thor Björgólfsson meðal annars á fund forsætisráðherra í stjórnarráðinu.

Kannast ekki við viðræður

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs, sagði í samtali við 24 stundir í gær að áhugi væri enn innan bankans á að koma að kaupum á Glitni. Athygli vekur að í samtölum við fjölmiðla í gær kveðst Geir H. Haarde ekkert kannast við að bankinn hefði lagt fram tillögur sem gætu bjargað Glitni. Í sama streng tóku aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Skýrði forsætisráðherra fund sinn með Björgólfi Thor með þeim hætti að hann hitti Björgólf iðulega þegar hann væri á landinu og að þeir hefðu ákveðið að grípa tækifærið í ljósi þeirra breytinga sem hefði orðið á markaðnum.

Mikil viðskipti með bréfin

Áhrif kaupa ríkisins á Glitni eru ekki að fullu komin fram en þeirra er farið að gæta víða. Landsbankinn er stærsti lánadrottinn Stoða, en Stoðir töpuðu tugum milljarða á kaupum ríkisins á Glitni. Bréf í Landsbankanum féllu í verði í gær en viðskipti með hlut í bankanum voru þau mestu í einstöku félagi í Evrópu samkvæmt Bloomberg-fréttaveitunni, þ.e. 9 milljarðar króna. Munaði þar mestu ein stök viðskipti upp á 4,5 milljarð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert