Reiknað með um 60 milljarða halla

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt verður í dag er reiknað með tæplega 60 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs samkvæmt heimildum 24 stunda.

Fyrri spár höfðu gert ráð fyrir að tekjuafkoma ríkissjóðs yrði neikvæð um 20 milljarða króna á árinu 2009 en það breyttist á síðustu vikum.

Gerð frumvarpsins var lokið á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi og í kjölfarið sent til prentunar. Atburðir síðustu daga hafa því ekki bein áhrif á frumvarpið en heimildir 24 stunda herma að líklega verði tekið tillit til breyttra forsendna í meðförum þingsins.

Mikill tekjuafgangur undanfarin ár

Fjárlagafrumvarpið verður kynnt í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag klukkan ellefu og fyrsta umræða um það fer fram í þinginu á föstudag. Fjárlög voru síðast afgreidd með halla hérlendis árið 2001.

Í fjárlögum ársins 2008 var gert ráð fyrir tæplega 40 milljarða króna tekjuafgangi af rekstri ríkissjóðs.

Rekstrarreikningur fyrir árið 2007 sýndi að tekjuafgangur ríkissjóðs var um 89 milljarðar króna, árið þar áður tæplega 82 milljarðar króna og 113 milljarðar króna árið 2005. Ríkissjóður var í árslok 2007 með jákvætt fé upp á tæpa tíu milljarða króna. Það var í fyrsta sinn sem slíkt gerðist. Góð afkoma ríkissjóðs á árinu 2007 var meðal annars notuð til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands um 44 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka