Þrír milljarðar í tekjuafgang

Fjármálaráðuneytið áætlar að tekjuafgangur ríkissjóðs í ár verði um þrír milljarðar króna. Það er umtalsvert minni afgangur en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008, sem var kynnt á síðasta ári. Þar var gert ráð fyrir að tekjujöfnuðurinn yrði 39,2 milljarðar.

Í fjárlögum 2008 var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs næmu 473,4 milljörðum kr. og gjöldin næmu 434,2 milljörðum. Nú liggja hins vegar fyrir upplýsingar um innheimtu teknanna fyrstu átta mánuði ársins og nýjar spár um efnahagsþróunina fyrir árið í heild auk ársuppgjörs ríkissjóðs í ríkisreikningi 2007.

Umtalsverður viðsnúningur hefur orðið í einkaneyslu og eru horfur fyrir árið í heild lakari en reiknað var með síðasta haust. Tekjur ríkissjóðs á árinu hafa verið endurmetnar með hliðsjón af þessu og hljóðar ný áætlun upp á 463 milljarða króna, og gjöldin nema 460,5 milljörðum króna. Ný tekjuáætlun felur í sér 14,5% raunsamdrátt heildartekna árið 2008 í stað 2,9% í áætlun fjárlaga.

Í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að afkoma ríkissjóðs versni til muna og verði neikvæð um 56,9 milljarða kr. á næsta ári, en til samanburðar er áætlað að tekjuafgangur verði 3 milljarðar í ár, sem fyrr segir. Árið 2007 var hann tæplega 89 milljarðar kr.

Í þessari þróun gætir áhrifa um tímabundnum samdrætti í tekjum og auknum útgjöldum sem leiða af versandi efnahagshorfum því spár er að landsframleiðsla dragist saman um 1,6% á næsta ári, að því er segir í frumvarpi til fjárlaga 2009. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert