Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á stjórn efnahagsmála á Alþingi í vetur. Í upphafi þings ætlar þingflokkurinn meðal annars að leggja fram frumvarp til laga um Efnahagsstofnun.
VG segir í fréttatilkynningu að VG hafi frá 2004 lagt fram ítrekaðar tillögur til úrbóta við stjórn efnahagsmála og varað við ástandinu.
Í efnahagsþrengingunum verði sífellt mikilvægara að hagstjórn byggist á traustum undirstöðum. Enginn neiti því nú lengur að alvarleg mistök hafi verið gerð á undanförnum árum í hagstjórn landsins sem þjóðin gjaldi nú fyrir, m.a. með himinhárri verðbólgu, óstöðugu gengi og okurvöxtum. Þá sé gríðarleg aukning erlendra skulda þjóðarbúsins mikið áhyggjuefni.
„Það gefur auga leið að grundvöllur að góðri hagstjórn felst í hlutlausum og greinargóðum upplýsingum til stjórnvalda, embættismanna og annarra sem fara með efnahagsmál hér á landi. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mótmæltu því harðlega þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma og hafa löngum talað fyrir því að hún væri endurreist. Þetta frumvarp er liður í því að koma stjórn efnahagsmála á réttari kjöl til lengri tíma litið.“
VG leggur einnig fram frumvarp til laga um Íbúðalánasjóð. „Frumvarpið gerir Íbúðalánasjóði kleift að veita einstaklingum fyrirgreiðslu sem hafa að hluta eða öllu leyti fjármagnað íbúðakaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis undanfarin ár með lánum frá viðskiptabönkum gegn veði í húsnæðinu. Einnig er ofarlega á lista þingmála VG frumvarp um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða, til þess gert að tryggja betur hag almennings í stað þess að nota viðskiptabanka sem kjölfestu fyrir áhættufjárfestingar.“
Þá leggur VG fram frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum og barnalögum og þingsályktun um barnamenningarhús, frumvarp til laga um almenningssamgöngur og þingmál um strandsiglingar, takmörkun á losun brennisteinsvetnis í andrúmslofti og friðlýsingu Skjálfandafljóts, andstöðu við eldflaugavarnarkerfi NATÓ í Austur-Evrópu og fleira.