Austrænn keimur og partý

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður upp á austrænt kryddaða tónlist sem á ættir að rekja til Balí. Í kvöld verða tónleikar með hefðbundnu áskriftartónleikasniði en annað kvöld verður tónleikaformið brotið upp með stuttum tónleikum og partý-stemmningu sem er liður í tónleikaröðinni Heyrðu mig nú!

Hljómsveitarstjórinn James Gaffigan segir að dagskrá kvöldsins sæki innblástur í svokallaða Gamelan-tónlist frá Jövu og Balí. Á verkefnaskránni eru fjögur ólík tónskáld, Claude Debussy, Francis Poulenc, Colin McPhee og Nico Muhly sem öll hafa samið undir áhrifum frá Gamelan.

Kanadíska tónskáldið Colin McPhee heillaðist svo af þessari sérstöku slagverkstónlistar að hann flutti til Balí og bjó þar í áratug á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Áhrifin á tónlist hans eru augljós, ekki síst í hinu dáleiðslukennda verki Tabuh-Tabuhan.

Heitur og svalur tónsmiður

Á vefsíðu Sinfóníusveitarinnar segir um hinn unga Muhly: „Nico Muhly kemur úr allt annarri átt að sambræðslu austurs og vesturs. Hann horfir á hvernig framandi menning og landslag birtist í einföldun dægurmenningarinnar og speglar það í verkinu Wish You were Here á litskrúðugan og frumlegan hátt. Muhly þykir einhver "heitasti" tónskmiðurinn í dag og hefur unnið jöfnum höndum með jöfrum hins sígilda heims á borð við Philip Glass, og snjöllustu listamönnum dægurheimsins á borð við Anthony Hegarty, Björk og upptökumeistaranum Valgeiri Sigurðssyni."

Sjá nánar á heimasíðu Sinfóníuhljómsveitar íslands og viðtal við Nico Muhly og Árna Heimi Ingólfsson á blaðsíðu 37 í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert