Sala á bleiku slaufunni gengur mjög vel og samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu var búið að selja ríflega helming þeirra 40.000 slaufa sem er markmið söfnunarátaksins að þessu sinni. Þá er silfurslaufan svokallaða, sérstök skartútgáfa bleiku slaufunnar uppseld hjá Krabbameinsfélaginu en enn er hægt að kaupa hana hjá samstarfsaðilum söfnunarinnar, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.
Að sögn Gústafs Gústafssonar, fjáröflunarstjóra Krabbameinsfélags Íslands, hafa viðbrögð almennings og fyrirtækja verið frábær.
Að þessu sinni er bleika slaufan hönnuð af Hendrikku Waage. Bæði ódýrari og dýrari slaufan hafa selst mjög vel.
Ódýrari slaufan kostar 1.000 krónur og er hægt að kaupa hana hjá eftirtöldum fyrirtækjum: Kaffitári, Te & kaffi, Eymundson, Frumherja, Samkaupum, Lyfju, Lyfjum og heilsu, Lyfjavalo og Hreyfli. Fyrirtækjaþjónusta Pennans annast sölu á bleiku slaufunni til fyrirtækja.
Dýrari slaufan, silfurslaufan, kostar 5.900 krónur. Hún er sem fyrr segir uppseld hjá Krabbameinsfélaginu en enn er hægt að nálgast hana hjá Saga Boutique og fyrirtækjum sem selja vörur Hendrikku Waage á Íslandi: Leonard Kringlunni, Leonard Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Icelandair, Hilton hótel og Halldóri Ólafssyni á Akureyri. Fyrirtæki geta pantað silfurslaufuna hjá fyrirtækinu Tanna – auglýsingavörum.