Hugmyndir að breyttu skipulagi miðbæjarins á Akureyri voru kynntar í bæjarráði í morgun. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að Glerárgata verði þrengd úr fjórum akreinum í tvær frá Strandgötu að Kaupvangsstræti, umtalsverðri uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis, nýtingu bílastæða í miðbænum verður breytt og margumtalað síki/vatnasvæði mun ná frá Torfunefsbryggju inn að bakhlið gamla Apóteksins við Hafnarstræti.
Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um útfærslur á dýpi á síki/vatnasvæði en líklegast yrði það 14 metra breitt. Ljóst er að ef síkið verður að veruleika - eins og allt virðist benda til - þarf að fjarlæga húsið þar sem Ljósmyndastofa Páls er nú; síkið liggur frá sjónum, upp með Skipagötu 9 að sunnanverðu þar sem til húsa eru m.a. Sparisjóðurinn Byr og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og upp í gegnum portið norðan við hús Íslandspósts.
Unnið er áfram eftir verðlaunatillögu Graeme Massie, en hann sigraði í hugmyndasamkeppni sem haldin var fyrir nokkrum árum; þó með nokkuð breyttum áherslum. Fjölmiðlum voru kynntar tillögurnar nú eftir hádegið, stefnt er að því að kynna bæjarbúum hugmyndirnar fyrir jól og að formlegi kynningarferli ljúki snemma á næsta ári.
Áætlaðar tekjur bæjarins af gatnagerðargjöldum verða yfir einn milljarður króna og verða þær að hluta til nýttar til að fjármagna nauðsynlegar lykil framkvæmdir.