Enn gert ráð fyrir síki í miðbæ Akureyrar

Líkan af þeim hugmyndum sem kynntar voru í morgun. Síkið …
Líkan af þeim hugmyndum sem kynntar voru í morgun. Síkið liggur frá menningarhúsinu Hofi og upp undir göngugötuna, Hafnarstræti. mbl.is/skapti

Hugmyndir að breyttu skipulagi miðbæjarins á Akureyri voru kynntar í bæjarráði í morgun. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að Glerárgata verði þrengd úr fjórum akreinum í tvær frá Strandgötu að Kaupvangsstræti, umtalsverðri uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis, nýtingu bílastæða í miðbænum verður breytt og margumtalað síki/vatnasvæði mun ná frá Torfunefsbryggju inn að bakhlið gamla Apóteksins við Hafnarstræti. 

Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um útfærslur á dýpi á síki/vatnasvæði en líklegast yrði það 14 metra breitt. Ljóst er að ef síkið verður að veruleika - eins og allt virðist benda til - þarf að fjarlæga húsið þar sem Ljósmyndastofa Páls er nú; síkið liggur frá sjónum, upp með Skipagötu 9 að sunnanverðu þar sem til húsa eru m.a. Sparisjóðurinn Byr og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og upp í gegnum portið norðan við hús Íslandspósts.

Unnið er áfram eftir verðlaunatillögu Graeme Massie, en hann sigraði í hugmyndasamkeppni sem haldin var fyrir nokkrum árum; þó með nokkuð breyttum áherslum. Fjölmiðlum voru kynntar tillögurnar nú eftir hádegið, stefnt er að því að kynna bæjarbúum hugmyndirnar fyrir jól og að formlegi kynningarferli ljúki snemma á næsta ári.

Áætlaðar tekjur bæjarins af gatnagerðargjöldum verða yfir einn milljarður króna og verða þær að hluta til nýttar til að fjármagna nauðsynlegar lykil framkvæmdir.

Teikning af miðbænum eins og hann gæti litið út, ef …
Teikning af miðbænum eins og hann gæti litið út, ef þær tillögur sem nú er unnið eftir verða að veruleika.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert