Flugþjónustan greiði 40 milljónir í sekt
Hæstiréttur hefur dæmt Flugþjónustuna á Keflavíkurflugvelli, dótturfélag Icelandair, til að greiða 40 milljónir í sekt vegna brota á samkeppnislögum, annars vegar með því að hafa gert einkakaupasamninga með löngum gildistíma við tíu flugfélög um afgreiðslu á flugvélum á Keflavíkurflugvelli og hins vegar með tilboði sínu og síðar samningi við þýska flugfélagið LTU.
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a. að Flugþjónustan hafi á þessum tíma haft yfirburðastöðu á þessum markaði og haft um 95% markaðshlutdeild en keppinauturinn, Vallarvinir, höfðu aðeins 5% hlutdeild. Þá hafi legið fyrir að öðrum viðskiptavinum Flugþjónustunnar buðust ekki sambærileg kjör og fyrirtækið bauð LTU-flugfélaginu.
Í kæru sem Vallarvinir sendur Samkeppniseftirlitinu á sínum tíma kom fram að LTU væri langstærsti viðskiptavinur Vallarvina og í raun kjarninni í starfsemi fyrirtækisins. LTU hefði fengið tilboð frá Flugþjónustunni sem væri um 30% undir markaðsvirði og þar að auki bindandi til þriggja ára. Hér væri um skaðlega undirverðlagningu að ræða.
Þá væri langur samningstími við flugfélögin tíu, þrjú til fjögur ár, óeðlilega langur og hamlaði gegn samkeppni.
Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að í í tilboði Flugþjónustunnar til LTU hefði falist beinskeytt og sértæk aðgerð sem beint hefði verið gegn Vallarvinum ehf. og verið til þess fallin að draga úr umsvifum félagsins og þar með samkeppni. Verðlagning Flugþjónustunnar hefði ekki byggt á eðlilegum efnahagslegum grunni og tilboðið styddi þá ályktun að í háttsemi félagsins hefði falist árásarhegðun sem væri til þess fallin að veikja eða hrekja smærri keppinaut af markaðnum.
Samkeppniseftirlitið gerði Flugþjónustunni að greiða 80 milljónir í sekt en hún var lækkuð um helming af Hæstarétti.