Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni, að aðkoma ríkisins að Glitni marki vitaskuld ekki endapunkt í þeim hremmingum sem steðja að bankakerfinu hér á landi. Íslenskir bankar, eins og allir aðrir bankar í heiminum, heyi nú mikla varnarbaráttu með liðsinni stjórnvalda og opinberra aðila.
„Ég fullyrði hér að ríkisstjórn mín mun hvergi slá af í þeirri stefnu sinni að tryggja með öllum tiltækum ráðum stöðugleika fjármálakerfisins og færa þær fórnir sem nauðsynlegar kunna að verða. Í því verkefni verður sem fyrr gengið fram með hagsmuni almennings að leiðarljósi og búið svo um hnútana að hagsmunir fólksins í landinu séu sem best tryggðir," sagði forsætisráðherra.
Geir sagði að ríkisstjórnin muni láta einskis ófreistað til að jafnvægi myndist sem fyrst á ný í þjóðarbúinu, þannig að verðbólga og vextir lækki. Að sama skapi vilji hún forðast það að atvinnuleysi aukist og verði að þjóðarböli. Hann sagði í lok ræðu sinnar, að langbrýnasta verkefni næstu mánaða sé að ná verðbólgunni niður. Hún sé sá skaðvaldur sem mestum búsifjum valdi á heimilum almennings og í rekstri fyrirtækja. Um leið og árangur náist í þeirri baráttu muni vextir lækka og með auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum muni gengi íslensku krónunnar styrkjast á ný, enda alltof lágt um þessar mundir að mati flestra.
„Þjóðin veit að í aldanna rás hefur það ævinlega orðið okkur Íslendingum til hjálpar þegar bjátað hefur á að æðrast ekki, heldur bíta á jaxlinn og seiglast áfram. Við höfum lært af langri búsetu í harðbýlu landi að orðskrúð og innantómar upphrópanir færa ekki björg í bú. Við viljum að verkin tali. Og þannig munum við sigrast á yfirstandandi erfiðleikum. Við þurfum öll að leggjast á eitt, beita margs konar úrræðum og það mun taka tíma – en að lokum munum við sem þjóð og sem einstaklingar á þessu landi sem er okkur svo kært standa af okkur fárviðrið og hefja nýja sókn á öllum sviðum," sagði Geir H. Haarde.