Halli á borgarsjóði

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Mun minni tekjur af sölu byggingaréttar en gert var ráð fyrir, verðbólga og mikil lækkun gengis krónunnar urðu til þess að A-hluti borgarsjóðs var rekinn með 395 milljón króna halla í stað 4,4 milljarða afgangi eins og áætlanir gerðu ráð fyrir á fyrstu sex mánuðum ársins. Skuldir jukust um 58,7 milljarða.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 en reikningarnir voru lagðir fram í borgarráði í morgun.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A- og B-hluta. Til A-hluta telst sú starfsemi sem að hluta eða að öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. A-hluti er Aðalsjóður og Eignasjóður. Til B-hluta teljast fyrirtæki sem eru í eigu borgarinnar, að hálfu leyti eða í meirihlutaeign, s.s. Bílastæðasjóður, Faxaflóahafnir, Orkuveita Reykjavíkur og fleira.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs hafi verið jákvæð um rúmlega 3,6 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 229 milljóna afgangi. Meginskýringin á betri afkomu er sögð felast í 3 milljarða króna hærri fjármunatekjum en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Rekstur fagsviða hafi verið innan ramma fjárheimilda þrátt fyrir hærri verðbólgu en ráð var fyrir gert. „Þetta er jákvæð og mikilvæg niðurstaða sem sýnir að borgin er vel rekin,“ segir í tilkynningunni frá borginni.

Annað var uppi á teningnum hjá Eignasjóði. Tekjur sjóðsins af sölu byggingaréttar námu aðeins 7% af áætluðum tekjum og jafnframt voru gatnargerðargjöld á tímabilinu langt undir áætlun. Verðbólga og gengislækkun leiddu til hærri fjármagnsgjalda og urðu þessir ytri áhrifavaldar til þess að A-hluti borgarsjóðs var rekinn með 395 milljóna króna halla í stað tæplega 4,4 milljarða afgangs.

„Árshlutareikningurinn sýnir fram á sterka fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Ytri aðstæður valda því að alvarleg þróun blasir við í fjármálum borgarinnar og við þeim tíðindum hefur borgarráð þegar brugðist með því að vinna stefnumótandi aðgerðaáætlun fyrir komandi fjárhagsáætlanagerð,“ segir í tilkynningu borgarinnar um árshlutareikninginn.

Skuldir aukast svo um munar

Burtséð frá því hversu borgin er vel rekin er ljóst að gengisfallið, samdráttur í byggingariðnaði og verðbólga hefur leikið borgarsjóð býsna grátt. Þannig kemur fram í árshlutareikningnum að tekjur samstæðu A- og B-hluta eru 6,9 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir og er meginskýringin dræm sala á byggingarétti auk þess sem skatttekjur voru lægri vegna lækkandi útsvars. Gjöldin voru reyndar 1,9 milljarði lægri en samkvæmt áætlun.

Skuldir borgarsjóðs hafa einnig aukist, eins og hjá flestum. Í árshlutareikningnum kemur fram að heildarskuldir A- og B-hluta, að frátöldum skuldbindingum, eru 194,6 milljarðar en voru 135,9 milljarðar í árslok 2007. Skuldirnar jukust því um 58,7 milljarða króna. Á sama tíma jukust eignir um 37,5 milljarða og skuldbindingar minnkuðu um 2,2 milljarða. Eigið fé A- og B-hluta lækkaði því um 19 milljarða á tímabilinu, að því er fram kemur í árshlutareikningnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert