Hrina árekstra varð á höfuðborgarsvæðinu í kvöld þegar hálka myndaðist skyndilega á götum í kjölfar éljagangs. Óhappatilkynningum rigndi inn til lögreglunnar. Ekki var tilkynnt um slys á fólki að sögn lögreglu en óhöpp voru á annan tuginn.
Þá hefur Strætó bs hætt akstri í Kópavogi í kvöld vegna mikillar hálku, að sögn Einars Kristjánssonar, sviðsstjóra þjónustusviðs hjá fyrirtækinu.
Ekið er á öllum öðrum leiðum Strætó. Mikil hálka er á Reykjanesbraut og hafa bílar farið þar út af.
„Það er hálka um nánast allt Reykjanesið og á höfuðborgarsvæðinu. Allir bílar okkar eru á ferð að dreifa salti um götur og skafa snjó af vegum,“ segir Guðjón Jónsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni, um færðina í kvöld.
Að sögn Guðjóns er það mat lögreglunnar að hluti ökumanna hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, enda færðin ekki góð í hálkunni.
Einar segir hins vegar að reikna megi með einhverjum seinkunum í úthverfum höfuðborgarsvæðisins í kvöld vegna hálku. Það muni þó skýrast þegar líða taki á kvöldið.
Jörð er nú hvít á höfuðborgarsvæðinu eftir fyrsta kuldakast haustsins.
Að sögn lögreglunnar á Akranesi hefur borið á hálku á vegum og götum bæjarins. Ekki hafi hins vegar komið til óhappa.