Þrátt fyrir gengishrun er hljóðið gott í framkvæmdastjórum Smáralindar og Kringlunnar. Þeir segja að fjöldi viðskiptavina sé svipaður í fyrra og gera ráð fyrir að verslanir hér á landi njóti góðs af því að færri hyggi nú á verslunarferðir í útlöndum. Merki eru um að fólk kaupi fleiri og ódýrari hluti.
Henning Freyr Henningsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, sagði að viðskiptavinum hefði eitthvað fækkað miðað við sama tíma fyrir ári en þó ekki mikið. "Við fundum fyrir þessu fljótlega eftir áramótin en það má kannski segja að júlí og ágúst hafi verið verri en hinir." Í september hafi menn séð ákveðin batamerki í veltu í húsinu og þakkar hann það nýrri markaðsherferð. Henning tók fram að þótt um væri að ræða samdrátt frá því í fyrra yrði að hafa í huga að árið 2007 var algjört metár. Velta og gestafjöldi í ár væri svipaður og árið 2006 sem hafi þótt býsna gott ár. Verið væri að fylla verslunarrými sem voru laus í sumar og kaupmenn sæju fram á bjartari tíma þrátt fyrir krónuhrunið undanfarna daga.
Í Kringlunni er veltan sem kemur fram í greiðslukortanotkun svipuð og í fyrra í krónum talið. Það telst þó vera samdráttur í sjálfu sér því vörur hafa hækkað umtalsvert síðan þá. Jafnframt hefur kortafærslum fjölgað. "Svo virðist sem fólk sé að kaupa sér fleiri og ódýrari hluti," sagði Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Sigurjón Örn sagði að kaupmenn byggjust við tiltölulega góðri jólaverslun þar sem fólk færi síður í verslunarferðir til útlanda eftir að krónan féll. Við þessar aðstæður væri hagstæðara að kaupa vörur á Íslandi. Hann benti á að samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst hefði innkaupsverð á erlendum vörum hækkað um 32% frá ágúst 2007 til ágúst 2008 en verðlag hefði hækkað mun minna. Samkvæmt fyrrnefndum niðurstöðum hækkaði t.a.m. fatnaður um 18% á þessu tímabili og skór um 11%.