Kristján Möller, samgönguráðherra, og skipstjórinn á Gullbergi VE-292, Sverrir Gunnlaugsson, opnuðu nýtt langdrægt net 3G senda sem Síminn hefur komið fyrir með sjávarsíðu landsins á sjávarútvegssýningunni í morgun. Nú er í fyrsta sinn komið síma- og netsamband á nærmiðum í kringum landið.
Segir í tilkynningu að langdræga 3G netið mun ná yfir alla sjávarsíðu Íslands og leysa gamla NMT kerfið af hólmi. „NMT kerfið hefur gagnast okkur vel í gegnum tíðina, en nú er það orðið úrelt og hætt að framleiða það. Innan NMT kerfisins þurftir þú að vera á ákveðnum stað á skipinu til að hringja, á meðan þú getur talað hvar sem er um borð með 3G farsímanum. Langdræga 3G kerfið mun því ekki einungis leysa NMT kerfið af hólmi heldur mun það einnig vera töluverð samskiptabót,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans í fréttatilkynningu.