Orkuveitan í kröppum dansi

Staða Orkuveitu Reykjavíkur hefur versnað til muna og ætla má að lánshæfismatið kunni að lækka mjög mikið. Fyrirtækið er mjög skuldsett í erlendri mynt  vegna virkjunarframkvæmda og hafa lánin rokið upp vegna gengisþróunar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi formaður borgarráðs, sagði í júlí  að ætla mætti að draga þyrfti verulega á framkvæmdum en fyrirtækið hafði þá þegar tapað sautján milljörðum vegna gengisþróunar. Síðan þá hefur gengi krónunnar fallið um tæp þrjátíu prósent gagnvart evru en tæp fimmtíu prósent gagnvart dollar.  Von er á níu mánaða uppgjöri fljótlega.

Svandís Svavarsdóttir, stjórnarmaður í Orkuveitunni, segist spyrja sig hver staða fyrirtækisins væri ef öll sérfræðiþekking fyrirtækisins til 20 ára, hefði verið látin inn í Reykjavík Energy Invest, þar sem Glitnir var einn eigenda.

Svandís Svavarsdóttir segir ekki koma til greina að hækka verðið enn frekar til borgarbúa. Opinber fyrirtæki verði að herða sultarólina en ekki velta byrðunum yfir á almenning en vandi hans sé ærinn fyrir.

Stjórn fyrirtækisins var boðuð með skömmum fyrirvara á fund í Orkuveitunni á föstudag. Aðeins eitt mál er á dagskrá, fjármálin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert