Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, hefur viðrað þá skoðun sína að minnsta kosti tvisvar síðustu daga, að ástandið í íslenskum efnahagsmálum sé orðið svo alvarlegt að hafi einhvern tíma verið ástæða til að koma saman þjóðstjórn hér á landi sé það nú. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fréttablaðið hefur öruggar heimildir fyrir því að Davíð hafi látið þessi ummæli falla að minnsta kosti tvívegis nú í vikunni.
Í fyrra sinnið lét hann þessi orð falla á sérstökum aukafundi í bankaráði Seðlabanka Íslands, þar sem kynnt var sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að þjóðnýta Glitni og leggja honum til nýtt hlutafé.
Seinna skiptið var á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag, þar sem seðlabankastjóri var mættur sem gestur til að skýra ríkisstjórn frá stöðu mála frá sjónarhóli Seðlabankans.