Álverið í Straumsvík á sér skrautlega nágranna sem láta hvorki útsýnið né mengun trufla sig. Í litlum bæ beint á móti álverinu eru búa ótal skrautdúfur og tveir kettir sem eiga að halda músagangi í skefjum. Skrautdúfnafélag Hafnarfjarðar samanstendur af sjö körlum sem hafa yndi af fallegum dúfum.
Þeir hafa fengið að halda dúfurnar sínar í skjóli álversins og þar flögra dúfurnar um. Þeir segja dúfurnar hraustar þrátt fyrir nábýlið við verksmiðjuna.
Sú var tíðin að allir áttu sinn eigin dúfnakofa. Þeirra á meðal Þorvaldur Rúnarsson núverandi formaður Skrautdúfnafélagsins. Svo voru dúfurnar gerðar útrækar úr borg og bæjum. Eftir þennan tíma lifa aðeins tvö félög Skrautdúfnafélag Hafnarfjarðar og Bréfdúfnafélag Íslands.
Dúfurnar fjölga sér ótt og títt þótt reynt sé að halda slíku í skefjum. Þess vegna Þarf stundum að farga þeim. Félagarnir í Skrautdúfufélagi Hafnarfjarðar hafa haldið dúfnaveislu og gætt sér þar á skrautdúfunum og sjálfsagt einhverju sterku með. Það var ekki laust við að dúfurnar í fangi formannsins færu að ókyrrast nokkuð þegar þeim veisluhöldum var lýst.