Tæplega 1.500 sagt upp í hópuppsögnum í ár

Nýbyggingar í Úlfarársdal
Nýbyggingar í Úlfarársdal Haraldur Guðjónsson

Alls hefur verið sagt upp um 1.460 manns á árinu 2008 með hópuppsögnum. Í septembermánuði bárust Vinnumálastofnun fjórar tilkynningar um hópuppsagnir. Allt voru það tilkynningar frá fyrirtækjum í byggingariðnaði, starfandi á höfuðborgarsvæðinu.

Alls var tilkynnt um uppsagnir á 113 starfsmönnum en heildarfjöldi starfsmanna þessara fyrirtækja er um 430 og er því um fjórðungi starfsmanna sagt upp að jafnaði, að því er fram kemur á vef Vinnumálastofnunar.

Uppsagnirnar koma til framkvæmda á fimm mánaða tímabili, en fyrstu uppsagnirnar koma til framkvæmda í lok októbermánaðar en þær síðustu í lok febrúar 2009. Flestar uppsagnirnar koma þó til framkvæmda fyrir árslok 2008.

Í hverjum mánuði það sem af er ári hafa borist allt að fjórar tilkynningar um hópuppsagnir, engin í mars en mest 4 í maí og september. Fjöldi þeirra sem sagt er upp er hins vegar mjög mismunandi, í flestum tilvikum eru fyrirtæki að segja upp fáum tugum starfsmanna en í einstaka tilvikum hafa uppsagnir einstakra fyrirtækja verið nálægt 100 eða jafnvel nokkur hundruð.

Sveiflurnar eru því miklar milli mánaða en á heildina litið fjölgar þeim sem sagt er upp með hópuppsögnum eftir því sem líður á árið. Flestum starfmönnum var sagt upp í ágúst, en einnig var fjöldi einstaklinga mikill í maí og júní.

Nú síðustu mánuði hefur mest verið um hópuppsagnir í byggingariðnaði og er yfir 40% uppsagna á árinu 2008 í byggingariðnaði. Um 20% er í flugrekstri, milli 15 og 20% í ýmis konar þjónustustarfsemi, svipað hlutfall í verslunarstarfsemi og 6% í sjávarútvegi.

Nálægt 60% uppsagnanna ná til fólks sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu, tæp 20% á Suðurnesjum og rúm 20% annars staðar á landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert