Ummæli um Þóru Guðmundsdóttur, sem oftast er kennd við Atlanta, og birtust í Séð&heyrt í nóvember 2006 voru ómerkt í Hæstarétti í dag. Jafnframt var Eiríkur Jónsson, ritstjóri ritsins, dæmdur til að greiða Þóru 500.000 í miskabætur.
Ummælin ómerktu voru í grein um fasteignaviðskipti Þóru en óumdeilt var í málinu að greinin var rituð af Eiríki Jónssyni. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að telja yrði að hluti þeirra ummæla sem Eiríkur hafði ritað fælu í sér ærumeiðandi móðgun í garð Þóru. Með vísan til þess að framsetning greinarinnar hefði verið til þess fallin að auka sölu blaðsins var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um upphæð miskabótanna staðfest.
Eiríkur var jafnframt dæmdur til að greiða henni 350.000 krónur í málskostnað og samtals nemur málskostnaður, sem hann var dæmdur til að greiða, rúmlega 1,3 milljónum króna.
Lögmaður Þóru var Sveinn Andri Sveinsson hrl. en Kristinn Bjarnason hrl. flutti málið f.h. ritstjórans.