Samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallups eru aðeins rúm 18% landsmanna ánægð með störf stjórnarandstöðunnar en rúm 28% eru óánægð með störf hennar. Yfir helmingur svarenda, þ.e. um 53%, segist hvorki ánægður né óánægður.
Gallup kannaði viðhorf almennings til starfa stjórnarandstöðunnar og hvort fólk teldi að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu ná betri árangri en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í mikilvægum málaflokkum.
Treysta ríkisstjórninni betur í efnahagsmálum og menntamálum
Þegar spurt var að því hvort fólk teldi að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu standa sig betur eða verr við stjórn efnahagsmála en núverandi stjórnarflokkar kemur í ljós að tæplega 24% landsmanna telja að þeir myndu standa sig betur en rúmlega 31% að þeir myndu standa sig verr. Stór hluti svarenda, 45%, telur hins vegar að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu hvorki standa sig betur né verr við efnahagsstjórnina en núverandi stjórnarflokkar.
Þegar spurt var á sama hátt um menntamálin kemur í ljós að almenningur virðist treysta stjórnarflokkunum nokkru betur en stjórnarandstöðunni í þeim málaflokki. Tæplega 23% telja að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu ná betri árangri á sviði menntamála, tæp 25% að árangurinn yrði verri en meira en helmingur svarenda, þ.e. naumlega 53%, telja að að árangur stjórnarandstöðunnar yrði hvorki betri né verri en árangur núverandi ríkisstjórnarflokka.
Fleiri treysta stjórnarandstöðunni í heilbrigðismálum
Þegar kemur að heilbrigðismálum breytist myndin nokkuð þar sem liðlega 39% telja að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en núverandi stjórnarflokkar. Rúmlega 21% hafa meiri trú á ríkisstjórnarflokkunum á þessu málefnasviði en rétt um 40% telja þó að stjórnarandstaðan myndi hvorki ná betri né verri árangri en núverandi ríkisstjórnarflokkar á sviði heilbrigðismála.