Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, breytti stefnuræðu sinni á síðustu stundu í gær og vakti með því væntingar um að stórtíðinda væri að vænta. Hann dró ekki dul á erfiðleikana en greindi ekki frá neinu sem gæti orðið til bjargar. Formenn stærstu stjórnarandstöðuflokkanna gáfu ræðunni ekki háa einkunn og sögðu hana vonbrigði. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir róið öllum árum til að efla gjaldeyrisforðann. Það sé hinsvegar ekki hægt að gefa út yfirlýsingar um hluti sem ekki sé búið að ganga frá.
Skyndilega skall á fimbulvetur meðan á ræðunni stóð eins og kreppa væri ekki nóg. Flestir stjórnarþingmenn sem fréttastofa ræddi við voru á því að tíðindaleysið væri til marks um hvað ástandið væri alvarlegt. Búist er við tíðindum af gjaldeyrissamningum í dag sem ekki voru í höfn í gær.