Percy Westerlund, sendiherra Evrópusambandsins hjá Íslandi og Noregi, segir í bloggfærslu á vef fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB að ekkert Evrópuríki hafi orðið jafnmikið fyrir barðinu á fjármálakreppunni og Ísland en hann voni að Íslendingar komist úr úr kreppunni án of mikilla erfiðleika.
„Gjaldeyrisvandamálið hefur valdið mikilli umræðu á Íslandi um hvort taka eigi upp evruna. Upphaflega var mikið talað um einhliða upptöku evru en sú umræða virðist hafa stöðvast eftir að bæði framkvæmdastjórn ESB og Seðlabanki Evrópu hafa tekið afar neikvætt í þær hugmyndir. Svo spurningin er hvort aðildarumsókn sé kostur. Það eru engar vísbendingar um að slíkt sé rætt af alvöru á stjórnmálasviðinu í næstu framtíð.
Á endanum mun tvennt hafa þýðingu í því máli. Annað er geta Íslands til að standa af sér fjárhagsleg óveður og draga úr ójafnvægi í hagkerfinu. Hitt er hvort stór fyrirtæki, aðallega bankarnir, geti haldið áfram að vaxa og dafna á Íslandi innan núverandi gjaldeyriskerfis," segir Westerlund.
Hann segist vona að Ísland komist út úr núverandi erfiðleikum. „Íslendingar eru dugleg, útsjónarsöm og raunsæ þjóð sem hefur sigrast á erfiðleikum áður. Ég yrði fyrstur til að fagna Íslandi sem fjórða Norðurlandinu í Evrópusambandið ef það yrði ósk íslensku þjóðarinnar. Ísland er í raun þegar „sýndaraðili" gegnum Evrópska efnahagssvæðið og nána samvinnu á mörgum sviðum en það er auðvitað mikilvæg ákvörðun að sækja um aðild sem kallar á umræðu og íhugun. Gjaldeyrisvandinn kann að hafa hrint slíku umhugsunarferli af stað, sem ég held að muni komi Íslendingum að gagni hver sem niðurstaðan verður," segir Westerlund.