Landlæknir, forstjóri Lýðheilsustöðvar og yfirlæknir Vinnueftirlitsins birta yfirlýsingu á vef landlæknisembættisins í dag þar sem segir að í umræðu um samdrátt og niðurskurð í atvinnulífinu sé mikilvægt að vanda orðaval til að valda börnum, ungmennum, veikum og öldruðum ekki óþarfa kvíða.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Umræða um samdrátt og niðurskurð í atvinnulífinu með beinum afleiðingum fyrir heimili og fyrirtæki er mjög hávær og rökin fyrir henni skýr. Þetta er alvarleg umræða sem snertir unga sem aldna og þar af leiðandi er mikilvægt að vanda orðaval til að valda börnum, ungmennum, veikum og öldruðum ekki óþarfa kvíða. Þá þarf að gæta þess að umræða um þennan vanda á vinnustöðum sé á þann veg að fólk festist ekki í hringiðu umræðunnar heldur sinni vinnu og verðmætasköpun, sjálfum sér og samfélagi til hagsbóta.
Mikilvægt er að fjölmiðlar og aðrir vandi þessa umræðu og hafi í huga að flutningur fregna af válegum atburðum er bestur ef jöfnum höndum er fjallað um lausnir vandans þannig að fólk geti brugðist sem best við.
Það er brýnt að hafa í huga að óvönduð umræða um mál af þessu tagi er skaðleg heilsunni og því mikilvægt að vanda hana í hvívetna og láta hana ekki fara úr böndum. "
Undir þetta skrifa Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, Sigurður Guðmundsson landlæknir og Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar.