Icelandair mun frá og með næstu mánaðamótum bjóða farþegum nýtt farrými, svonefnt Economy-plus, um borð í flugvélum sínum. Um er að ræða farrými með aukinni þjónustu og meira rými fyrir hvern farþega en í almennu farrými.
Í tengslum við þessa breytingu gerir Icelandair einnig breytingar á fargjaldaflokkum sínum og er sala samkvæmt nýja fyrirkomulaginu þegar hafin. Fyrstu ferðirnar með Economy-plus farrýminu verða farnar 1. nóvember.
Economy-plus farrýmið er fyrir aftan SagaClass farrýmið í flugvélum Icelandair. Sætin eru þau sömu og í almennu farrými, en aðeins er selt í fjögur sæti af sex í hverri sætaröð og því er miðjusætið jafnan laust og eykur rými fyrir farþegana.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, er Economy-plus hugsað sem millistig milli Saga Class og almenna farrýmisins. Færanlegt spjald verður sett á stólbak öftustu sætaraðar farrýmisins en ekki verður lokað alveg á milli, líkt og gert er með Saga Class. Spjaldið verður hægt að færa eftir sætaröðum, eða taka alveg niður, eftir því hve margir farþegar hafa keypt miða á Economy-plus.
Guðjón segir að með þessu sé verið að svara óskum viðskiptavina um millistig en mörg flugfélög hafi þennan háttinn á, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.