Íslendingar þurfa ekki að kvíða myrkri og kulda

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/G.Rúnar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi, að Íslendingar þurfi ekki að kvíða myrkri og kulda eins og þjóðir sem eru háðar olíu og gasi.

„Við getum enn fremur treyst á sterkan íslenskan landbúnað og öfluga bændur sem sjá okkur fyrir mjólkurvörum, kjöti og grænmeti. Við eigum sæti við háborð gæðanna í matvælum, hvað sem gerist á erlendum mörkuðum. Fæðuöryggi er stórmál eyþjóðar. Enn er það svo að hollur er heimafenginn baggi," sagði Guðni.

Þá sagði hann að við núverandi aðstæður í peningamálum, eigi Íslendingar aðeins einn kost, að skapa jafnvægi og stöðugleika. Evra og gjaldmiðilssamstarf væri svo ákvörðun síðar.

„Ég tel að Maastricht skilyrðin, sem ríki verða að uppfylla til að taka upp evru, séu hagsældar leið, horft til framtíðar. Við eigum enga aðra leið nú en að verja krónuna. Hins vegar eigum að vinna í okkar peningamálastefnu, eins og við séum á leið inn í myntbandalagið. Öll þau atriði eru grundvöllur batnandi lífskjara. Ísland setji sér metnaðarfull áform um lága verðbólgu, lítinn sem engan fjárlagahalla, skuldir ríkisins í lágmarki, stöðugleika í gengisskráningu. Að stýrivextirnir hér verði ekki hærri en í bestu löndum Evrópu. Þegar þessu marki verður náð eigum við alla möguleika og frjálst val um framtíðina. Slík markmið eiga að vera okkar leiðarljós í peningamálastefnunni."

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert