Skólagjöldin nærri tvöföld

Skólagjöld í háskólum erlendis hafa nærri tvöfaldast frá því námsmenn sóttu um nám í byrjun ársins. Dagamunur er gífurlegur einmitt núna þegar gjalddagi er á skólagjöldum hjá mörgum námsmönnum erlendis. Sem dæmi má nefna að skólagjöld fyrir meistaranám í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum hækkuðu um 100.000 krónur frá því í gærmorgun þar til bankar lokuðu í gær. Þó hafði krónan styrkst frá því sem hún féll lægst um daginn.

Starfsmenn Lánasjóðs íslenskra námsmanna þekkja nokkur dæmi þess að fólk hafi hreinlega hætt við nám erlendis vegna gengisþróunar. Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, bendir á að þeir sem létu slag standa í þeirri von að krónan hjarnaði við séu í erfiðri stöðu. „Þeir sem eru komnir út og búnir að finna sér íbúð, þeir bakka ekki svo auðveldlega út núna. Þeir eru kannski búnir að segja upp vinnunni, jafnvel komnir út með alla fjölskylduna. Fólk hugsar sig tvisvar um áður en það leggur í nám erlendis í þeirri óvissu sem ríkir núna.“

Á árum áður gátu námsmenn erlendis lent í því að þegar gengi krónunnar féll áttu þeir skyndilega ekki fyrir nauðsynjum, þar sem krónutalan skilaði þeim sífellt lægri upphæð í erlendri mynt. Nú er mánaðarframfærsla námslána stöðluð í mynt dvalarlands og því ekki hætta á því. Í staðinn sitja námsmenn uppi með enn hærri skuldir eftir nám erlendis.

Jafnvel þar sem skólagjöld eru lág kosta dagleg útgjöld mun meira í íslenskum krónum í dag heldur en þegar fólk ákvað að fara í nám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka