Aðeins í örugga höfn

Fréttamenn ræða við Geir H. Haarde, forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í …
Fréttamenn ræða við Geir H. Haarde, forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í gær. mbl.is/Kristinn

Fallist lífeyrissjóðirnir á að færa hluta af erlendum eignum sínum hingað til lands sem hluta af aðgerðum til að rétta við efnahag landsins, er ljóst að þeir fjármunir yrðu tryggðir af ríkinu, t.d. með því að sjóðirnir keyptu ríkistryggð skuldabréf. Þetta kom fram í viðtölum við nokkra af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda í gærkvöldi.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, sagði of snemmt að ræða um með hvaða hætti fjármunir lífeyrissjóðanna yrðu færðir hingað til lands enda viðræður um málið nýhafnar. Það væri þó alveg ljóst að slíkt yrði „ekki gert til að bjarga áhættufjárfestum“.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, sagði að sett yrði sem skilyrði að þeir pappírar sem fjárfest yrði í væru ríkistryggðir og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að ekki hefði verið rætt um annað.

ESB hluti af heildaraðgerðum?

Fulltrúar stærstu lífeyrissjóðanna voru boðaðir á fund þriggja ráðherra í gær þar sem lagt var fyrir þá hvort þeir væru tilbúnir að færa hluta af erlendum fjárfestingum sjóðanna yfir í íslenskar krónur. Þeir játuðu því hvorki né neituðu en lofuðu að skoða málið áfram. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar sem rætt var við voru á einu máli um að slíkar aðgerðir yrðu að vera hluti af heildaraðgerð sem væri nægilega umfangsmikil og trúverðug til að hún myndi stuðla að lausn efnahagsvandans.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er mikill áhugi á því innan Samfylkingarinnar að yfirlýsing um að Íslendingar stefni á aðildarviðræður við ESB fylgi þeim aðgerðum í efnahags- og peningamálum sem ríkisstjórnin hefur í undirbúningi.

Í hnotskurn
» Lífeyrissjóðirnir eiga um 500 milljarða í eignum erlendis.
» Ekki hefur verið tekin afstaða til hugmynda um að færa hluta af eignum til landsins og er staða málsins sögð afar viðkvæm.
» Gera má ráð fyrir að forystumenn ríkisstjórnar, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda fundi stíft um þetta mál og fleiri um helgina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert