Icelandair hefur afturkallað uppsagnir átta flugmanna, sem sagt var upp í sumar. Flugmennirnir fara í verkefni í vetur á vegum Loftleiða-Icelandic fyrir tékkneska flugfélagið Travel Service, sem er í eigu Icelandair Group, og fljúga í leiguflugi m.a. til eyja í Karíbahafinu og til Taílands.
Travel Service er leiguflugfélag sem flýgur einkum með tékkneska ferðamenn til landa við Miðjarðarhafið og lengra.
Loftleiðir Icelandic starfa á alþjóðlegum leiguflugsmarkaði og annast nú verkefni í Suður- og Norður-Ameríku, Evrópu, Rússlandi og Eyjaálfu. Félagið er nú með sjö flugvélar í rekstri. steinthor@mbl.is