Fulltrúar lífeyrissjóðakerfisins hafa síðdegis rætt við stjórnvöld um aðkomu sjóðanna að aðstoðaraðgerða við íslenskt fjármálakerfi, ef af verður. Í morgun sátu stjórnendur stærstu lífeyrissjóða og landssambands á tveimur fundum og á stórum fundi með formönnum og framkvæmdastjórum allra lífeyrissjóða á landinu eftir hádegið voru málin kynnt enn frekar og farið yfir atburði vikunnar.
Einnig var gengið frá svari lífeyrissjóðanna til stjórnvalda, sem kynnt voru síðdegis.
„Við vitum ekki enn hvað þetta eru miklar fjárhæðir sem stjórnvöld eru að óska eftir. Við þurfum upplýsingar um umfang vandans, svo aðgerðir okkar dugi til langtímastyrkingar krónunnar. Við leggjum sérstaka áherslu á að allir lífeyrissjóðirnir taki þátt. Af hálfu stærstu lífeyrissjóðanna er það skilyrði að allir lífeyrissjóðir í landinu verði með í þessu," sagði Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða við Morgunblaðið fyrr í dag.
Hrafn sagði að af þeim samtölum sem hann hafi átt sé ekki annað að heyra en að sé skilningur ríki á ástandinu. Þá verði aðgerðir lífeyrissjóðanna samstilltar við hugmyndir aðila vinnumarkaðarins. „Þetta verður einn heildstæður pakki," sagði Hrafn.